Zechariah 9

1Spádómur. Orð Drottins beinist gegn Hadraklandi og það kemur niður í Damaskus, því að Drottinn hefir gætur á mönnunum og á öllum ættkvíslum Ísraels. 2Sömuleiðis í Hamat, sem þar liggur hjá, í Týrus og Sídon, því að þær eru vitrar mjög. 3Týrus reisti sér vígi og hrúgaði saman silfri eins og mold og skíragulli eins og saur á strætum. 4Sjá, Drottinn skal gjöra hana að öreiga og steypa varnarvirki hennar í sjóinn, og sjálf mun hún eydd verða af eldi. 5Askalon skal sjá það og hræðast, og Gasa engjast sundur og saman. Sömuleiðis Ekron, því að von hennar er orðin til skammar. Konungurinn mun hverfa frá Gasa, og Askalon mun verða óbyggð, 6og skríll mun búa í Asdód. Ég gjöri enda á ofdrambi Filista, 7og ég tek blóðið burt úr munni þeirra og viðurstyggðirnar undan tönnum þeirra. Þá munu þeir sem eftir verða, tilheyra Guði vorum, þeir munu verða eins og ætthöfðingjar í Júda og Ekronmenn eins og Jebúsítar. 8Ég sest kringum hús mitt sem varðlið gegn þeim, sem um fara og aftur snúa. Enginn kúgari skal framar vaða yfir þá, því að nú hefi ég séð með eigin augum. 9Fagna þú mjög, dóttirin Síon, lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem! Sjá, konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og sigursæll, lítillátur og ríður asna, ungum ösnufola. 10Hann útrýmir hervögnum úr Efraím og víghestum úr Jerúsalem. Öllum herbogum mun og útrýmt verða, og hann mun veita þjóðunum frið með úrskurðum sínum. Veldi hans mun ná frá hafi til hafs og frá Fljótinu til endimarka jarðarinnar. 11Vegna blóðs sáttmála þíns læt ég bandingja þína lausa úr hinni vatnslausu gryfju. 12Snúið aftur til hins trausta vígisins, þér bandingjar, sem væntið lausnar. Einnig í dag er gjört heyrinkunnugt: Ég endurgeld þér tvöfalt. 13Ég hefi bent Júda eins og boga, fyllt Efraím eins og örvamæli, og ég vek sonu þína, Síon, í móti sonum Javans og gjöri þig eins og sverð í hendi kappa. 14Drottinn mun birtast uppi yfir þeim og örvar hans út fara sem eldingar. Drottinn Guð mun þeyta lúðurinn og ganga fram í sunnanstormunum. 15Drottinn allsherjar mun halda hlífiskildi yfir þeim, og þeir munu sigra þá og fótum troða slöngvusteinana. Og þeir munu drekka og reika sem víndrukknir og verða fullir eins og fórnarskálar, dreyrstokknir sem altarishorn. 16Drottinn Guð þeirra mun veita þeim sigur á þeim degi sem hjörð síns lýðs, því að þeir eru gimsteinar í höfuðdjásni, sem gnæfa glitrandi á landi sínu. 17Já, hversu mikil eru gæði þess og hversu dýrleg fegurð þess! Korn lætur æskumenn upp renna og vínberjalögur meyjar.
Copyright information for Icelandic